Lærum af Kanada

Alls staðar þar sem lax er alinn í opnum sjókvíum eru sömu vandamálin til staðar. Íslendingar geta ekki leyft íslenska laxastofninum að hljóta sömu örlög og nágrannar okkar beggja vegna Atlantshafsins.

Lykilatriði

  • Nýleg rannsókn í Kanada leiddi í ljós að kanadíski laxinn hefur blandast við þann evrópska sökum laxeldis.
  • Kanadískir verndarsjóðir hafa safnað gögnum um villtan lax í Kanada í meira en tvo áratugi. Alls staðar í grennd við laxeldi hefur villtur Atlantshafslax verið formlega metinn sem annaðhvort „ógnað“ eða „í hættu“.
  • Meira en 750.000 laxar hafa sloppið úr opnum sjókvíum á suðurströnd Nýfundnalands frá því að fiskeldi hófst og staðfest er að eldislax má finna þar í meira en 17 ám.

Lærum af Kanada

Kanada

Áætlað er að stofn Atlantshafslaxins í Kanada telji um 530.000 fiska. Eins og annars staðar í heiminum hefur stofninum í Kanada hnignað mikið, eða um 50% undanfarin 40 ár. Fyrir því eru ýmsar ástæður en röskun af völdum manna er talin stærsta ógnin. Fiskeldisiðnaðurinn í Kanada er tiltölulega lítill miðað við stærð landsins, eða um 75.000 tonn við Atlantshafsströndina. Áhrifin hafa engu að síður nú þegar verið mæld. Kanada hefur, ólíkt Íslandi, bannað notkun á frjóum laxi af erlendum uppruna og því er allur lax sem nú er ræktaður í fiskeldi af kanadískum uppruna.

Þrátt fyrir að kanadíski fiskeldisiðnaðurinn sé tiltölulega lítill þá eru nú þegar merki um afleiðingar og tjón sem iðnaðurinn getur haft á umhverfið. Nýleg rannsókn sem var framkvæmd við Bay of Fundy á austurströnd Kanada leiddi í ljós að kanadíski laxinn hefur blandast við þann evrópska sökum laxeldis og það þýðir að evrópskur lax hefur verið fluttur ólöglega til Kanada. Þetta mál er talið alvarlegt brot á alþjóðasáttmálum sem Kanada er aðila að.

Erfðablöndun

Kanadískir verndarsjóðir, svo sem Atlantic Salmon Federation (ASF), hafa látið gera rannsóknir og safnað gögnum um villtan lax í Kanada í meira en fimm áratugi. Af þeim gögnum má fá skýrar vísbendingar um þau áhrif sem fiskeldi hefur haft á villta stofna. ASF viðurkennir að söguleg hnignun laxastofnanna stafi að miklu leyti af litlum lífslíkum í sjó en alltaf er meiri hnignun þar sem fiskeldi er nálægt villtum laxi. Alls staðar í grennd við laxeldi hefur villtur Atlantshafslax verið formlega metinn sem annaðhvort „ógnað“ eða „í hættu“. Lax sem sleppur úr eldi hefur fundist í ám á öllum svæðum þar sem laxeldi er stundað. Meira en 750.000 laxar hafa sloppið úr opnum sjókvíum á suðurströnd Nýfundnalands frá því að fiskeldi hófst og staðfest er að eldislax má finna í meira en 17 ám á suðurströndinni. Nýleg rannsókn á laxeldi í sunnanverðu Nýfundnalandi hefur sýnt fram á erfðablöndun við villtan lax. Þar að auki eru vandamál með laxalús og veikindi sem að lokum leiða til hnignunar villtra stofna.

Nýlega flutti norskt fyrirtæki, Grieg, inn ófrjóan lax af norskum uppruna frá Íslandi til notkunar við Nýfundnaland. Alltaf er tekin áhætta með notkun ófrjórra fiska þar sem hætta er á að þeir séu ekki allir ófrjóir. Að auki eru öll önnur umhverfisvandamál fiskeldis enn til staðar, s.s. laxalús og útbreidd mengun.

Alls staðar þar sem lax er alinn í opnum sjókvíum eru sömu vandamálin til staðar. Íslendingar geta ekki leyft íslenska laxastofninum að hljóta sömu örlög og nágrannar okkar beggja vegna Atlantshafsins.

Heimildir