Um NASF

Verndarsjóður villtra laxastofna, North Atlantic Salmon Fund (NASF) er alþjóðleg stofnun sjálfboðaliða með höfuðstöðvar í Reykjavík. Sjóðurinn er rekinn fyrir framlög frá stofnunum, samtökum og einstaklingum í löndunum beggja vegna Atlantshafsins. Sjóðurinn hóf starfsemi árið 1989 að frumkvæði Orra Vigfússonar (1942-2017), formanns sjóðsins til dauðadags, og hefur starfrækt deildir í mörgum löndum og átt samstarf við skylda aðila víða.

Meginmarkmið NASF er að vernda villtan lax í Norður Atlantshafi með því að kaupa upp alla löglega laxveiðikvóta og veiðileyfi í hafinu. Sjóðurinn hefur keypt upp nær allan úthafsveiðikvóta á laxi, að stærstum hluta af færeyskum og grænlenskum sjómönnum, reynt að gera samninga um strandveiðar og keypt nánast allar laxanetalagnir við Ísland upp.

NASF hefur gætt þess að öll uppkaup hafi verið í samræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála og áhersla hefur verið lögð á viðskiptasjónarmið í náttúruverndinni. Sjómenn sem samið hefur verið við hafa því verið mjög ánægðir með samstarf við sjóðinn enda hefur hluti kaupverðsins verið notaður til að styðja þá við að þróa og leggja stund á aðrar veiðar.

Þá hefur NASF og samstarfsaðilar tekið þátt í margs konar verndunaraðgerðum og stíflurofum beggja vegna Atlantshafs með það að markmiði að endurheimta búsvæði og gönguleiðir laxfiska. Þessu hafa fylgt samningaviðræður við stjórnvöld og hagsmunaaðila. Starfsemi sjóðsins og upphafsmaður hans, Orri Vigfússon, hefur notið virðingar náttúru- og umhverfissinna víða um heim. Sjálfur hlaut Orri fjölda verðlauna og viðurkenninga, þar á meðal hina íslensku fálkaorðu, riddaraorðu frá dönsku drottningunni, viðurkenningar frá Time Magazine og The Economist og riddaraorðu frá frönsku ríkisstjórninni. Árið 2007 fékk Orri ein virtustu umhverfisverðlaun heims úr hendi Karls Bretaprins: The Goldman Environmental-verðlaunin fyrir baráttu sína fyrir verndun dýrategundar í útrýmingarhættu.

Hin síðari ár hefur Íslandsdeild NASF beitt sér gegn virkjunum sem hafa og/eða geta spillt gönguleiðum laxfiska, s.s. fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta Þjórsár, keypt upp netalagnir í Hvítá / Ölfusá og beitt sér gegn áformum um stóraukið fiskeldi í opnum sjókvíum við Íslandsstrendur. Í málflutningi sínum hefur NASF einkum talað fyrir vernd villtra laxastofna, sem eru í stórhættu ef opið sjókvíaeldi færist í vöxt, og lagt áherslu á laxeldi í lokuðum kerfum en einnig bent á þær hættur sem öðrum laxfiskum eru búnar sem og umhverfinu almennt. Þessi barátta hefur því tengst öðrum náttúruverndar- og hagsmunasamtökum fólks sem nýtir villta náttúru og dýralíf með sjálfbærum hætti sér til lífsviðurværis.

Árið 2020 var Elvar Örn Friðriksson ráðinn sem framkvæmdastjóri NASF á Íslandi eftir að hafa setið í stjórn í 3 ár. Formaður stjórnar er Friðleifur E. Guðmundsson, en hann starfað með sjóðnum frá 2013, og sinnt ýmsum verkefnum á þeim tíma. Einnig sitja í stjórn Gísli Sigurðsson, Haraldur Þórðarson, Kateryna Rakowsky, Chad Pike og Edward Schmidt.