Laxalús

Með hækkandi sjávarhita hér við land má gera ráð fyrir að lúsavandamál verði mun algengari og alvarlegri en hingað til í sjókvíaeldi á laxi – með tilheyrandi og mjög skaðlegum áhrifum á umhverfið. Lúsasmit magnast alls staðar upp í opnu sjókvíaeldi og þaðan smitast það til villtra laxfiska (þ.m.t. sjóbirtings og sjóbleikju) og laxaseiða, sem ganga til sjávar í nágrenni stöðvanna. Slíkt smit, þegar seiðin eru á viðkvæmu aðlögunarskeiði í söltum sjó, hefur afdrifarík áhrif á afkomu þeirra í hafinu.

Norður-amerískir, írskir og norskir vísindamenn sem hafa komið á ráðstefnur hér á landi undanfarin ár, auk forsvarsmanna fiskeldis í Færeyjum, hafa talað einum rómi um að lúsavandamál gjósi hvarvetna upp, fyrr eða síðar, þar sem laxeldi er stundað í opnum sjókvíum. Hér á landi þráuðust menn lengi við að viðurkenna þetta, enda nánast um lítil fiskabúr að ræða miðað við það sem nú er ráðgert.

Vöktun á laxalús í fiskeldisstöðvum hér við land hefur ekki verið fullnægjandi undanfarin ár og er það að miklu leyti í höndum eldisfyrirtækjanna að hafa eftirlit með sjálfum sér. Ekkert hefur t.d. verið fylgst með lúsasmiti á sjóbleikju og sjóbirtingi í nánd við eldi hér við land. Nú hefur þó loks verið viðurkennt að lúsavandræðin eru að koma í ljós í fiskeldinu á Íslandi – eins og sérfræðingar NASF hafa haldið fram frá upphafi.

Lykilatriði

  • Laxalús er sníkjudýr sem lifir í sjó og leggst einkum á laxfiska.
  • Þegar þúsundum laxa er komið fyrir í opinni sjókví myndast kjöraðstæður fyrir laxalús til að fjölga sér. Nái hún að fjölga sér um of étur hún fiskinn lifandi.
  • Smávaxin sjógönguseiði eru sérlega viðkvæm fyrir lús og eru dæmi um að heilu stofnar villtra laxfiska hafi nær þurrkast út vegna nálægðar við opnar sjókvíar.
  • Fiskeldisfyrirtækin á Íslandi héldu því lengi vel staðfastlega fram að laxalús yrði ekki vandamál hérlendis þar sem sjórinn væri of kaldur. Það reyndist rangt og nú hefur eitur ítrekað verið notað til að reyna að halda lúsinni í skefjum.
  • Íslensk stjórnvöld lögðu til árið 2020 að allt að 15 sinnum meira lúsamagn yrði heimilt í kvíum hér við land heldur við Noreg
  • Um 800.000 hrognkelsi voru sett í íslenskar sjókvíar árið 2020 með það eitt að markmiði að éta lús og drepast
  • Á árunum 2017 – 2020 hefur lúsaeitur verið notað m.a. Í Arnarfirði, Dýrafirði og Tálknafirði
  • Með hækkandi sjávarhita og auknum lífmassa hér við land má gera ráð fyrir að lúsavandamál verði mun algengari og alvarlegri en hingað til – með mjög skaðlegum áhrifum á umhverfið.

Laxalús er sníkjudýr

Laxalús er sníkjudýr sem lifir í sjó og leggst einkum á laxfiska, s.s. lax, urriða og bleikju. Það er ekki óalgengt að villtir laxfiskar séu með laxalús í einhverjum mæli. Þegar þúsundum laxa er komið fyrir í opinni sjókví þá myndast kjöraðstæður fyrir lúsina til að fjölga sér. Laxalús lifir á húðfrumum, slími og blóði fisksins og nái hún að fjölga sér um of étur hún fiskinn lifandi. Afleiðingarnar fyrir fiskinn eru blóðleysi og vökvaójafnvægi sem getur í sumum tilfellum dregið hann til dauða. Opnar sjókvíar veita enga hindrun út í umhverfið og laxalúsin á því greiða leið í villta fiska. Sjógönguseiði eru smávaxin og því sérstaklega viðkvæm fyrir laxalús og eru dæmi um að heilu stofnar villtra laxfiska hafi nær þurrkast út vegna nálægðar við opnar sjókvíar sem glíma við lúsavandamál. Algeng meðhöndlun við laxalús er að eitri er dælt í sjóinn og það berst svo út í nærumhverfið þar sem engin hindrun er til staðar í opnum kvíum. Algengt er að lúsin myndi ónæmi fyrir eitrinu og er fiskeldisiðnaðurinn stöðugt að prófa sig áfram í alls kyns lausnum sem eru hver annarri verri fyrir fiskinn og umhverfið. Fiskeldisfyrirtækin á Íslandi héldu því lengi vel staðfastlega fram, þvert gegn áliti sérfræðinga NASF, að laxalús myndi ekki verða vandamál hér á landi þar sem sjórinn væri of kaldur. Það reyndist því miður ekki rétt og nú hefur eitur ítrekað verið notað til að reyna að halda lúsinni í skefjum. Fiskeldi á Íslandi í dag er fremur smátt í sniðum en ef áform um að margfalda það á næstu árum ganga eftir mun það leiða til þess að lúsavandamálið mun margfaldast með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum. Laxalús er eitt helsta vandamálið sem fiskeldisiðnaðurinn glímir við en eina raunverulega vörnin gegn lúsinni er lokaðar kvíar í sjó eða landeldi.

Smitast milli fiska

Laxlús smitast milli fiska, sérstaklega þegar þeir eru nærri hver öðrum í fjörðum eða árósum og grynningum þar fyrir framan. Áhrif lúsarinnar á laxfiska eru margvísleg: 1) Hún er ásæta sem hefur neikvæð áhrif á heilsu fiska, og einnig mögulega á lífslíkur þeirra í sjógöngu. 2) Laxalús á eldislaxi veldur ekki bara usla í eldinu heldur smitast hún yfir á villta laxfiska í sjó, lax jafnt sem sjóbleikju og sjóbirting. Þar er bleikjan í sérstakri hættu. Hún heldur sig mest í grunnsjó og með ströndum, einmitt þar sem mest er af laxalús frá fiskeldi. 3) Eiturefnin sem eru notuð gegn lúsinni berast út í umhverfið og hafa skaðleg áhrif á aðrar tegundir í lífríki hafsins, einkum hvers konar skelfisk.

Samuel Shephard og Patrick Gargan birtu árið 2017 grein um áhrif laxalúsar á viðgang villtra laxa í Erriff ánni á vesturströnd Írlands. Þeir notuðu gögn frá 26 ára tímabili, og mátu áhrif laxalúsar á enduheimtur laxa eftir eitt ár í sjó. Niðurstöðurnar voru afgerandi, mikil sýking af laxalús yfir sumarið, leiddi til lélegrar endurheimtu árið á eftir. Laxalúsin hafði því áhrif á heildarfjölda fiska í ánni og þar með á veiði hvert ár fyrir sig. Þessar niðurstöður ríma við yfirlit Forseth og félaga, sem drógu fram að laxalús er viðvarandi vandamál í norsku laxeldi og aðgerðir til að draga úr sýkingu og áhrifum hennar, hafa lítil áhrif m.a. vegna vaxtar í greininni.

Lyf geta safnast upp

Lyf gegn laxalús geta safnast upp í náttúrunni. Langford og félagar 2017, könnuðu dreifingu 5 laxalyfja í nærumhverfi eldisstöðva í Noregi. Þau fundu þrjú virk efni, Diflubenzuron, teflubenzuron, og emamectin benzoate, í umtalsverðum styrk í seti og vökvasýnum frá 40% af sýnatökustöðunum. Það sýnir að viðvarandi lúsasýkingar leiða til hærri remmu þessara eiturefna í náttúrunni. Einnig fundu þeir efni í rækjum á einni stöðinni, í styrk sem gæti haft áhrif á hamskipti dýranna. Tilraunir Kristine E. Brokke sýna einnig að tiltekin lyfjasambönd notuð gegn laxalús geta haft skaðleg áhrif á villtar rækjur. Því má álykta að lyf gegn laxalús geti haft neikvæð áhrif á villtar tegundir í hafinu, sérstaklega í nærumhverfi kerja og eldissvæða. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af laxalúsinni og lyfjum gegn henni, því norskar tölur sýna að efnanotkun gegn laxalús margfaldaðist á síðasta áratug. Hún jókst úr 218 kg í 6.810 kg af virkum lyfjum frá 2008 til 2012 (Norwegian IPH). Og eins og með alla aðra lyfjagjöf og eiturefnanotkun, þá þróast þol hjá laxalúsinni samfara aukinni notkun lyfja. Efnahernaðurinn gegn laxalúsinni kallar á stærri skammta og sterkari efni, á meðan lúsin þróar með sér varnir.

Hækkandi sjávarhiti

Með hækkandi sjávarhita hér við land má gera ráð fyrir að lúsavandamál verði mun algengari og alvarlegri en hingað til í sjókvíaeldi á laxi – með tilheyrandi og mjög skaðlegum áhrifum á umhverfið. Lúsasmit magnast alls staðar upp í opnu sjókvíaeldi og þaðan smitast það til villtra laxfiska (þ.m.t. sjóbirtings og sjóbleikju) og laxaseiða, sem ganga til sjávar í nágrenni stöðvanna. Slíkt smit, þegar seiðin eru á viðkvæmu aðlögunarskeiði í söltum sjó, hefur afdrifarík áhrif á afkomu þeirra í hafinu. Norður-amerískir, írskir og norskir vísindamenn sem hafa komið á ráðstefnur hér á landi undanfarin ár, auk forsvarsmanna fiskeldis í Færeyjum, hafa talað einum rómi um að lúsavandamál gjósi hvarvetna upp, fyrr eða síðar, þar sem laxeldi er stundað í opnum sjókvíum. Hér á landi þráuðust menn lengi við að viðurkenna þetta, enda nánast um lítil fiskabúr að ræða miðað við það sem nú er ráðgert. Engin skipuleg vöktun hefur farið fram á laxalús í fiskeldisstöðvum hér við land. Ekkert hefur t.d. verið fylgst með lúsasmiti á sjóbleikju og sjóbirtingi í nánd við eldi hér við land. Nú hefur þó loks verið viðurkennt að lúsavandræðin eru að koma í ljós í fiskeldinu á Íslandi – eins og sérfræðingar NASF hafa haldið fram frá upphafi.

Heimildir