Varnaðarorð Kjersti Sandvik - blaðamaður Fiskeribladet Icelanders are taking a great risk if they are planning to make the same mistake we did here in Norway. They are endangering the Icelandic salmon stock. This type of farming is a great risk.

Lykilatriði

  • Neikvæð umhverfisáhrif af laxeldi í opnum sjókvíum eru mikil og hafa þau verið rannsökuð töluvert.
  • Úrgangsefni sem enda í hafinu í nálægð við sjókvíar geta valdið miklum breytingum á efnasamsetningu sjávar, m.a. gert hann svo súrefnissnauðan að einungis ákveðnar lífverur fái þrifist.
  • Í rannsókn á laxeldi undan ströndum Bresku-Kólumbíu í Kanada kom fram að lífverur sem héldu sig nálægt botni sjávar við laxeldið innihéldu óvenju mikið af kvikasilfri.
  • Óhreinsaður úrgangur frá laxeldi er gríðarlega mikill og mun hafa sífellt meiri áhrif á náttúruna eftir því sem opið sjókvíaeldi á laxi eykst við strendur Íslands.
  • Úrgangurinn frá 15.000 tonna eldi jafnast á við klóakrennsli frá 120.000 manns.

Neikvæð umhverfisáhrif

Neikvæð umhverfisáhrif af laxeldi í opnum sjókvíum eru mikil og hafa þau verið rannsökuð töluvert og niðurstöður þeirra rannsókna birtar í viðurkenndum vísindatímaritum. Rannsóknir hafa sýnt að úrgangur og efni sem enda í sjónum í nánd við eldiskvíar hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið og allar lífverur sem halda til á botni sjávar á því svæði. Þau efni sem enda í hafinu í nálægð við sjókvíar geta valdið miklum breytingum á efnasamsetningu sjávar, m.a. gert hann svo súrefnissnauðan að einungis ákveðnar lífverur fái þrifist. Þetta hefur ekki einungis áhrif á dýralíf á svæðinu, heldur einnig plöntulíf.

Þekkt dæmi um skaðleg áhrif á náttúruna er frá laxeldi undan ströndum Bresku Kolumbíu í Kanada. Þar mældust ekki eingöngu breytingar á efnasamsetningu sjávar heldur einnig á lífverunum sjálfum. Í rannsókn Debruyn o.fl. frá 2006 kom fram að fiskar sem héldu sig nálægt botni sjávar í grennd við laxeldið innihéldu óvenju mikið af kvikasilfri. Mengun frá laxeldinu hafði því bein skaðleg áhrif á lífverurnar á svæðinu. Þetta skaðar bæði þær og mannfólkið sem leggur sér sumar af þessum dýrategundum til munns. Þar ber helst að nefna rækju og humar.

Óhreinsaður úrgangur

Óhreinsaður úrgangur frá laxeldi er gríðarlega mikill og mun hafa sífellt meiri áhrif á náttúruna eftir því sem opið sjókvíaeldi á laxi eykst við strendur Íslands. Almennt viðmið er að við framleiðslu á einu tonni af eldislaxi verði til úrgangur á við klóakrennsli frá átta manns. Þetta hljómar ekki eins og mikið, en hafa ber í huga að eitt tonn af laxi er einungis brot af því sem verið er að framleiða og stefnt er að því að auka framleiðsluna til muna.  Því má áætla að frá 15.000 tonna eldi komi úrgangur á við klóakrennsli frá 120.000 manns. Því má líkja við að nær öllu klóakrennsli Reykjavíkurborgar væri hleypt óhreinsuðu í íslenskan sjó.

Laxeldi í opnum sjókvíum er ekki umhverfisvænt en með því að ala laxinn í lokuðum kvíum er hægt að safna úrganginum saman og nýta hann í stað þess að láta hann sökkva og flæða óheft um hreina íslenska firði.