Varnaðarorð Kjetil Hindar - Rannsóknarstjóri Náttúruvísindastofnunar Noregs. Using open sea cages in Iceland is not particularly exciting, seeing as the method is phasing out in Norway.

Lykilatriði

  • Á sl. 20 árum hefur villti laxastofninn í Noregi dregist saman um helming og er talið að stærsta ógnin af mannavöldum sé fiskeldi á laxi í opnum sjókvíum.
  • Árlega er tilkynnt að um 200.000 fiskar að meðaltali sleppi úr opnum sjókvíum við Noregsstrendur.
  • Rannsóknir hafa sýnt að erfðablöndun er að finna í 71% af norskum ám.
  • Ástandið er orðið það alvarlegt að ríkisstjórn Noregs hefur takmarkað verulega útgáfu nýrra leyfa fyrir fiskeldi í opnum kvíum. Það er ekki að ástæðulausu að norsku laxeldisfyrirtækin leita nú til Íslands.

Sagan frá Noregi

Villti laxastofninn í Noregi telur um 530.000 fiska árið 2018. Á síðastliðnum 20 árum hefur stofninn dregist saman um helming og er talið að stærsta ógnin af mannavöldum sé fiskeldi á laxi í opnum sjókvíum. Noregur er stærsti framleiðandi á laxi í heiminum í dag og er framleiðslan um 1,2 milljónir tonna. Iðnaðurinn hefur haft víðtæk neikvæð umhverfisáhrif þar í landi. Stærsta einstaka ógnin er fiskur sem sleppur úr kvíum og hrygnir með villtum laxi. Slík viðvarandi erfðablöndun hefur varanleg áhrif á erfðamengi stofnsins – sem leiðir til hnignunar hans. Árlega er tilkynnt að um 200.000 fiskar að meðaltali sleppi úr opnum sjókvíum við Noregsstrendur en það er fjórfalt magn villta stofnsins hér á landi. Rannsóknir hafa sýnt að erfðablöndun er að finna í 71% af norskum ám og því er ljóst að vandamálið er mjög víðtækt. Í 29% tilfella er erfðablöndunin á háu stigi og er erfðamengi villta laxins í þessum ám byrjað að líkjast eldislaxinum – sem minnkar lífslíkur stofnsins. Annað stærsta vandamálið er laxalúsafaraldrar sem hafa herjað á iðnaðinn og engin lausn er í sjónmáli nema eldi í lokuðum kerfum. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að laxalús sem leggst á villta laxa hefur drepið um 50.000 laxa á árunum 2010 til 2014.

Fiskeldisiðnaðurinn notast við ýmsar aðferðir til að reyna að halda laxalús í skefjum. Eitri er hellt ofan í hafið, það er sett í fóðrið, fisknum er dælt upp í brunnbáta og hann baðaður upp úr eitri og 30°C heitu vatni. Afföllin í meðferðinni eru oft gríðarleg þar sem fiskurinn þolir illa þessa meðhöndlun. Einnig er mikið af úrgangi látið fara óhindrað út í umhverfið með margvíslegum neikvæðum áhrifum á vistkerfi sjávar.

Noregur er skýrt dæmi um að náttúrunni hefur verið fórnað fyrir fjárhagslega hagsmuni með ógnvænlegum afleiðingum. Ástandið er orðið það alvarlegt að ríkisstjórn Noregs hefur takmarkað verulega útgáfu nýrra leyfa fyrir fiskeldi í opnum kvíum og gefur nú nær eingöngu út leyfi þar sem umhverfisvænni lausnum er beitt svo sem lokuðum kvíum. Það er ekki að ástæðulausu að norsku laxeldisfyrirtækin leita nú til Íslands.