Hörmungar í Skotlandi

Skotland er þekkt fyrir óspillta náttúru og margar af bestu laxveiðiám í heimi. Fiskeldi í opnum kvíum við Skotland hefur haft margvísleg neikvæð áhrif. Víða hafa stofnar laxfiska hrunið. Flestar sjókvíar við Skotland er að finna undan vestuströndinni og á síðastliðnum árum hafa verið gríðarleg afföll í ánum þar.

Lykilatriði

  • Víða í Skotlandi hafa stofnar villtra laxfiska hrunið. Náttúruverndarsamtök þar í landi telja ótvírætt að það megi rekja til mikils fiskeldis í opnum sjókvíum.
  • Tilkynnt hefur verið um að 2.193.886 laxar hafi sloppið úr sjókvíum við Skotland á árunum 2002-2017.
  • Skoska þingið gaf út skýrslu í mars 2018 um umhverfisvandamál sem fiskeldi hefur valdið. Í henni kom m.a. fram að 25% árleg afföll í framleiðslu fiskeldisfyrirtækja teljast eðlileg, laxlúsafaraldrar eru mjög tíðir og notkun eiturs hefur haft ýmis neikvæð áhrif á umhverfið og villta stofna laxfiska.

Skotland

Skotland er þekkt fyrir óspillta náttúru og margar af bestu laxveiðiám í heimi. Fiskeldi í opnum kvíum við Skotland hefur haft margvísleg neikvæð áhrif. Víða hafa stofnar laxfiska hrunið. Alin hafa verið allt að 190.000 tonn árlega og eru áform um að auka framleiðslugetuna í 300-400 þús. tonn fyrir árið 2030. Vegna margskonar vandamála við eldið stefnir í að árið 2018 minnki framleiðslan um 20% milli ára og verði 150 þús. tonn. Flestar sjókvíar við Skotland er að finna undan vestuströndinni og á síðastliðnum árum hafa verið gríðarleg afföll í ánum þar. Auk laxins hafa silungastofnar orðið sérstaklega illa úti. Hið sama hefur ekki gerst á austurströndinni. Náttúruverndarsamtök í Skotlandi telja ótvírætt að hrun á stofnum laxfiska megi rekja til mikils fiskeldis á vesturströndinni. Vandamálin í Skotlandi hafa einkum tengst laxalúsafaröldrum. Lúsin hefur farið sérlega illa með sjógönguseiði úr ánum. Þau eru smá og þola illa þegar lús leggst á þau í miklum mæli. Talið er að það sé ein af meginástæðum hrunsins í skosku ánum.

Tilkynnt hefur verið um að 2.193.886 laxar hafi sloppið úr sjókvíum við Skotland á árunum 2002-2017. Takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á erfðablöndun í Skotlandi en skýrslur frá Noregi sýna að erfðablöndun er ein helsta ógnin við villta stofna – auk lúsarinnar. Rannsókn sem gerð var árið 2012 gaf til kynna að 25% af seiðum á vesturströnd Skotlands var erfðablandaður og hefur þessi tala að öllum líkindum hækkað síðan þá.

Það sem hefur einnig gerst á vesturströndinni er að sjóbirtingsstofnar hafa nánast þurrkast út. Mikið af sjóbirtingi sem kemst til sjávar lifir ekki af nema örfáa mánuði í sjó þar sem hann er mjög viðkvæmur fyrir ágangi laxalúsar. Það má því ætla að sjóbirtingur og sjóbleikja í nálægð við sjókvíar hér við land muni hljóta sömu örlög verði sjókvíaeldi heimilað í stórum stíl.

Umhverfisnefnd skipuð af skoska þinginu gaf út skýrslu í mars 2018 um þau fjölmörgu umhverfisvandamál sem fiskeldisiðnaðurinn hefur valdið. Í skýrslunni kom fram að iðnaðurinn er að glíma við sömu vandamál og voru til staðar árið 2002 en umfang og umhverfisáhrif eru orðin margfalt meiri í dag. Helstu atriði í skýrslunni voru að 25% árleg afföl í framleiðslu fiskeldisfyrirtækja teljast eðlileg, laxlúsafaraldrar eru mjög tíðir og notkun lúsaeiturs og lyfja hefur haft margvísleg neikvæð áhrif á umhverfið og villta stofna laxfiska. Losun úrgangs í umhverfið og áhrif þess á vistkerfið í heild sinni er einnig mikið áhyggjuefni. Nefndin benti á að ekki væri nægileg þekking til staðar á umhverfisáhrifum fiskeldis í opnum kvíum en að óbreytt ástand væri ekki boðlegt og kallað var eftir aðgerðum til að sporna við þessari þróun.

Hópur vísindamanna frá Noregi, Skotlandi og Írlandi fór yfir um 300 skýrslur og greinar um þau slæmu áhrif sem laxalúsafaraldrar á fiskeldissvæðum hafa á villta sjóbirtings- og laxastofna. Niðurstöður hópsins voru að 12-29% færri fiskar hrygndu á svæðum sem voru í nánd við sjókvíeldi. Einnig kom fram að vöxturinn á villtum fiskum var töluvert minni og afföll meiri.

Íslensk náttúra mun hljóta sömu örlög og við sjáum í Skotlandi og villtir stofnar laxfiska geta hrunið. Það eru miklar líkur á því að sjóbirtings- og sjóbleikjustofnar á Vestfjörðum og Austfjörðum muni hverfa á svæðum þar sem fiskeldi er stundað í stórum stíl og gleymist það oft umræðunni um neikvæð umhverfisáhrif fiskeldis í opnum sjókvíum. Dæmin frá Skotlandi eru skýr og það er engin ástæða til að ætla að eitthvað annað gerist á Íslandi nái áform fiskeldisiðnaðarins um stóraukið eldi á laxi í opnum sjókvíum fram að ganga.