Varnaðarorð Paul Knight - Chief Executive - Salmon & Trout Conservation Iceland is one of the last refuges for healthy stocks of wild salmon, so do not jeopardise that by allowing open net aquaculture – it would be an environmental disaster that you would regret for decades to come.

Lykilatriði

  • Vísindasamfélagið hefur bent á að tvær veigamestu ógnirnar við villta stofna laxfiska eru annars vegar laxalús og hins vegar hættan af erfðablöndun strokufiska við villta stofna.
  • Opnar eldiskvíar í sjó eru netpokar með flothring. Ávallt er hætta á að fiskur sleppi úr slíkum kvíum. Það er óumdeilt og fyrirtæki í fiskeldi viðurkenna þessa staðreynd.
  • Nú þegar hefur mælst erfðablöndun í að minnsta kosti 6 ám (6 villtum laxastofnum) á Vestfjörðum. 
  • Eftir því sem lífmassi í sjókvíaeldi eykst, þá eykst hættan á slysasleppingum og þar með hættan á erfðablöndun
  • Strokulaxar úr sjókvíaeldi geta synt hundruðir kílómetra og ratað upp í ár með villta stofna sem hafa verið að aðlagast og þróast síðan á síðustu ísöld. 
  • Stjórnvöld geta leyst vandann um erfðablöndun með reglum um að eingöngu skuli ala ófrjóan eldislax í lokuðum kvíum í sjó eða á landi

Erfðablöndun

Fiskeldi með frjóum laxi í opnum sjókvíum hefur margvísleg neikvæð áhrif á náttúruna og villta stofna laxfiska. Vísindasamfélagið hefur bent á að tvær veigamestu ógnirnar við villta stofna laxfiska eru annars vegar laxalús og hins vegar hættan af erfðablöndun strokufiska við villta stofna. Viðvarandi erfðablöndun hefur varanleg áhrif og leiðir til hnignunar villtra stofna sem hafa hrygnt í íslenskum ám frá lokum ísaldar. Erfðasamsetning íslenskra villtra laxa er einstök en norski eldislaxinn hefur verið ræktaður sérstaklega fyrir eldið og hefur ekki sömu erfðfræðilegu eiginleika og villti íslenski laxinn. Við framleiðslu dýra sem alin eru til manneldis er áherslan lögð á mikinn vaxtahraða en ekki hæfni til að lifa af í villtri náttúru. Eldislaxi sem sleppur úr sjókví er eðlislægt leita að á til þess að reyna að hrygna. Lausnin á þessum vanda er einföld: Stjórnvöld geta sett reglur um að eingöngu skuli ala ófrjóan eldislax í lokuðum kvíum í sjó eða á landi. Ísland er nú í kjörinni aðstöðu til að færa allt eldi í umhverfsvæna og örugga framleiðslu sem ógnar ekki náttúrunni og villtum stofnum laxfiska.

Opnar eldiskvíar

Opnar eldiskvíar í sjó eru netpokar með flothring. Ávallt er hætta á að fiskur sleppi úr slíkum kvíum. Það er óumdeilt og fyrirtæki í fiskeldi viðurkenna þessa staðreynd. Strokufiskar geta ýmist verið ungviði eða fullvaxta, og þeir geta sloppið út hvenær sem er yfir árið. Áhrifin á villta stofna velta á mörgum þáttum, m.a. aldri strokufisksins, hversu nálægt ám eða uppeldissvæðum villtra fiska kvíarnar eru, hvaða tíma árs strokið verður, og stærð og ástandi villtra stofna í grenndinni. Það eru vísbendingar um að strok eldisseiða geti verið verra fyrir náttúruna en strok stórfisks. Seiði af eldisuppruna sem vaxa upp í á, keppa um búsvæði við villt ungviði og draga þannig úr viðgangi þess. Einnig er hætta á að stórir strokufiskar sem sleppa út að vori eða sumarlagi gangi upp í ár með villtum laxi, berjist við hann um hrygningarstöðvar og maka, og æxlist við villta stofna. Merkingar og mælingar hafa kortlagt slíkt far og blöndun eldisfiska við villta stofna í Noregi, Skotlandi og á Írlandi. Sem fyrr eru í sumum tilfellum mælanleg áhrif, og þau birtast í ólíkum eiginleikum fiskanna og atferli þeirra. Tilraunir með uppalda fiska við staðalaðstæður hafa sýnt að eldisfiskar og villtir eru ólíkir á marga vegu, t.d. í stærð, kynþroska, stærð við kynþroska og atferli (félagshegðun og fælni gagnvart afræningjum). Einnig sést að blendingar geta erft einkenni eldisforeldranna, en það fer eftir eiginleikum og aðstæðum hvort gen eldisfisksins séu ríkjandi, víkjandi eða magnbundin miðað við villtu genin. Samandregið má segja að blöndun eldisstofna við náttúrulega stofna leiðir til verulega minnkaðrar viðkomu villtu stofnanna, truflar náttúruval og dregur úr líffræðilegri fjölbreytni villtu laxastofnanna. Því eru allar líkur á að veruleg viðvarandi innblöndun eldislaxa við náttúrulega stofna leiði til óafturkræfrar eyðingar viðkvæmra náttúrulegra laxastofna.

Erfðafræðilegar rannsóknir

Erfðafræðilegar rannsóknir hafa á undanförnum árum afhjúpað margvíslegan mun í erfðasamsetningu eldislaxa og villtra laxa. Þessar rannsóknir eru lengst komnar í Noregi, og byggja á sameindaerfðafræðilegum aðferðum til að greina uppruna gena og einstaklinga. Norski eldislaxinn var búinn til úr blöndu af um 40 villtum stofnum frá mið- og suður-Noregi, og einum sænskum stofni. Við kynbæturnar völdust úr tiltekin gen sem tengjast vexti, kynþroska, sjúkdómsþoli og öðrum þáttum sem fiskur í eldi treystir á. Afleiðingin er sú að erfðasamsetning eldisfisksins er önnur en villtra fiska. Laxar eru með erfðamengi á stærð við manninn, það er rétt tæplega 3 milljarðar basa og genafjöldinn er milli 35.000 – 45.000. Í erfðamengi þeirra eru milljónir breytileika, og með því að skoða þennan breytileika í villtum stofnum og eldisfiski er hægt að finna hvaða erfðabreytileiki einkennir eldisfiska. Nokkrar rannsóknir norskra sérfræðinga (t.d. Glover o.fl. 2013 og Karlsson o.fl. 2016) sýna að erfðafræðilega eru norskir eldislaxar ólíkir villtum löxum. Til þess að finna erfðalykla sem geta greint á milli voru eldisfiskar bornir saman við sýni úr villtum fiskum, frá miðjum síðasta áratug, fyrir uppgang fiskeldis í Noregi. Erfðamörkin nýttu Karlsson og félagar og reiknuðu út erfðablöndun í villtum laxastofnum, og könnuðu áhrif hennar á eiginleika þeirra. Niðurstöðurnar, sem komu út í tímaritsgrein 2016 eru mjög sláandi. Af 147 ám í Noregi var erfðamengunin frá eldislaxi meiri en 6.7% í 109 ám. Hæstu gildin voru rúmlega 40%, sem þýðir að 40% gena í fiskum úr þessum ám voru ættuð frá eldisfiskum. Erfðamengunin var mest í mið- og suður-Noregi, og hélst í hendur við fjölda fiskeldisstöðva og heildarmagn laxeldis á tilteknum svæðum. Ár sem höfðu verið verndaðar og lausar við eldisstöðvar í sjó, nálægt ósum og farleiðum laxa, höfðu ekki orðið fyrir jafn miklum eða jafnvel engum teljandi áhrifum erfðamengunar.

Þróunarfræðin

Aðalspurningin er samt hvaða áhrif gen frá eldisfiski hafa á villta laxa. Þróunarfræðin kennir að lífverur og stofnar eru aðlagaðar að umhverfi sínu, þannig að genasamsetning þeirra endurspeglar vistfræði tegundarinnar og staðbundnar aðstæður. Til dæmis er vitað að í Noregi er meðalstærð laxa mjög ólík milli svæða og áa, talað er um stórlaxaár og smálaxaár. Þar skipta staðbundnar aðstæður mestu (hiti, næringarframboð, hrygningaraðstaða, farleiðir og aðrir þættir). Eins er töluverður munur á laxi í suður- og norður-Noregi, sem og norskum, skoskum og íslenskum laxi, bæði í líffræði og erfðafræði. Karlsson og félagar nýttu sér gögn um erfðablöndun villtra norskra stofna til að meta áhrif erfðamengunar á vöxt, kynþroska og aðra eiginleika. Niðurstöður þeirra birtust í tímaritinu Nature Ecology and Evolution árið 2017, og boða ekki gott. Með auknu hlutfalli gena frá eldisfiskum, breytast eiginleikar villtra laxa. Áhrifin birtast í stærð við kynþroska, stærð við endurkomu úr sjó og fleiri þáttum. Áhrifin voru ekki einsleit, heldur ólík milli kynja, voru meiri á stórfisk, og sérstaklega mikil á fjarskyldari laxa í norður Noregi. Það skiptir verulegu máli fyrir íslenska laxastofninn, því hann er enn fjarskyldari norska eldislaxinum, og líklegt að strokufiskar hafi ekki minni áhrif á íslenska laxinn. Mikilvægt er að leggja áherslu á að breytingarnar sem gen frá eldislaxi hafa á villta laxa eru ekki þeim villta til framdráttar. Ef laxar í smálaxaá, fá aukið hlutfall gena úr eldislaxi og verða stærri eða kynþroska síðar, þá er hætt við að hæfni þeirra til að spjara sig í sínu náttúrulega umhverfi minnki.

Erfðanefnd landbúnaðarins hefur staðfest þessa hættu og mælir eindregið gegn notkun á frjóum laxi af erlendum uppruna í laxeldi hér á landi þar sem það muni leiða til hnignunar íslenska laxastofnsins.