Laxeldi í opnum og lokuðum kerfum

Laxeldi er ýmist stundað í opnum og hálflokuðum sjókvíum, eða í tönkum í sjó og á landi. Talað er um opin eða lokuð kerfi eftir því hvort hægt er að stjórna innstreymi, afrennsli og úrgangi frá eldinu.

Lausnin

Samantekt

  • Talað er um opin eða lokuð kerfi í fiskeldi eftir því hvort hægt er að stjórna innstreymi, afrennsli og úrgangi frá eldinu.
  • Með því að ala lax í lokuðum kerfum á landi eða í lokuðum kvíum/tönkum í sjó verður hann heilbrigðari en í opnum sjókvíum, lúsafaraldrar heyra sögunni til og heildarmengun frá eldinu er miklu minni.
  • Lokaða leiðin í eldi er framleiðir betri matvöru og er ódýrust fyrir umhverfið.

Laxeldi í opnum og lokuðum kerfum

Laxeldi er ýmist stundað í opnum og hálflokuðum sjókvíum, eða í tönkum í sjó og á landi. Talað er um opin eða lokuð kerfi eftir því hvort hægt er að stjórna innstreymi, afrennsli og úrgangi frá eldinu. Í opnum sjókvíum sjá hafstraumar um hreyfingu sjávar og úrgangur fellur stjórnlaust til botns eða flæðir út í umhverfið ásamt laxalús, örverum og veirum sem bera með sér sjúkdóma. Eftir því sem kerfin verða lokaðri er hægt að hafa meiri stjórn á straumi, súrefnisinnihaldi, hitastigi og úrgangi.

Lokaðar kvíar

Seiði eru alin í eldisstöðvum og smám saman flutt í stærri ker og síðan kvíar/tanka í sjó eða á landi. Með því að ala laxinn í lokuðum kerfum á landi eða í lokuðum kvíum/tönkum í sjó verður hann heilbrigðari en í opnum sjókvíum, lúsafaraldrar heyra sögunni til (þeir skaða villta laxfiska í 100-200 km fjarlægð frá eldinu) og heildarmengun frá eldinu er miklu minni.
Framleiðslukostnaður í lokuðum kerfum á landi er að jafnaði meiri en í sjó og því hefur landeldi einkum verið þróað til að geta verið sem næst mörkuðum. Lokað landeldi hefur þó reynst vel hér á landi þar sem gott aðgengi er að vatni og/eða orku, líkt og hjá Samherja í Öxarfirði og Matorku á Reykjanesi. Laxeldi í lokuðum kerfum á landi getur enn sem komið er ekki komið í staðinn fyrir laxeldi í sjó. Því er leitað allra leiða til að stunda fiskeldi í sjó án þess að skaða umhverfið.

Eina færa leiðin til þess að ala lax í sátt við náttúruna er að halda laxinum í lokuðum kvíum eða tönkum þar til honum er slátrað. Ýmsar aðferðir eru notaðar til að ná því marki, m.a. hálflokaðar kvíar með níðsterkum dúk úr gerviefni (Akvafuture), lokaður egglaga tankur með hringstraum sem Marine Harvest áætlar að hefja framleiðslu í á næsta ári (Eggið), og lokaður ílangur tankur með gegnumstreymi, sem hefur gefist sérlega vel (Preline). Öll þessi kerfi byggjast á að hreinsa og endurnýta úrganginn og dæla sjó af nægilega miklu dýpi til að hann séu laus við lús.

Lærdómur frá Noregi

Í nýrri norskri skýrslu um laxeldi í lokuðum kerfum í Noregi kemur fram að um helmingur af fjárfestingarkostnaði við ímyndaða laxeldisstöð sem byggði á samþættingu lokaðra og opinna kerfa færi í sjálft framleiðsluleyfið (842 milljónir NOK, af 1.682 milljónum NOK). Framleiðslukostnaður á 100 gramma seiðum upp í sláturstærð er reiknaður frá 28 NOK/kg í opnum kerfum án lúsameðferðar (33.8 NOK/kg með tíu aflúsunum og meðfylgjandi afföllum) og upp í 37.9 NOK/kg í lokuðum kvíum allan tímann (sbr. bls. 85-86 í 2. hluta skýrslunnar). Sambærilegar tölur fyrir laxeldi á Íslandi eru ekki aðgengilegar opinberlega.

Miðað við varanlegan skaða af erfðamengun fyrir villta laxinn, lúsafaraldra og þau umhverfisspjöll og illu meðferð á eldislaxinum sem fylgir opnu sjókvíunum og aflúsuninni virðist það lítill aukakostnaður að fara lokuðu leiðina í eldinu – sem er jafnframt langódýrust fyrir umhverfið.

Umhverfisvæn framleiðsla

Á móti auknum kostnaði við eldi í lokuðum kvíum kemur að neytendur eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir vottaða umhverfisvæna framleiðslu. Stjórnvöld geta einnig stýrt þróuninni með verðinu á framleiðsluleyfunum eftir því hvers konar eldi er áætlað að stunda. Engin ástæða er til að gefa eldisfyrirtækjum sjálfdæmi í því efni. Ekki verður séð að stjórnvöld hér á landi séu skyldug til að láta umhverfið, aðra atvinnustarfsemi og okkur hin bera kostnaðinn af sparnaði laxeldisfyrirtækjanna.