Hvert stefnir laxeldi á Íslandi?

Stutt saga á Ísland

Ekki er langt síðan laxeldi í opnum sjókvíum við strendur Íslands hófst aftur eftir að hafa legið í láginni um skeið. Eldisfyrirtækin stofnuðu með sér öflug hagsmunasamtök, Landssamband fiskeldisstöðva. Samtökin sameinuðust síðan Samtökum fyrirtækja í Sjávarútvegi (SFS). Ekki stunda öll fyrirtæki innan samtakanna sjókvíaeldi á laxi en þar eru umsvifin mest í dag og áætlanir um vöxt hvað stórtækastar. Aukningin undanfarin sex ár hefur fyrst og fremst byggst á eldi í sjókvíum á sunnanverðum Vestfjörðum, auk Austfjarða en helstu svæðin sem horft er til varðandi aukningu eru: Ísafjarðardjúp, Jökulfirðir og Eyjafjörður. Til varnar villtum laxastofnum í ám landsins er í gildi sú varúðarregla að sjókvíaeldi á laxi er einungis heimilt á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði. Slysasleppingar á eldislaxi hafa því miður sýnt að þessar varúðarreglur duga ekki til að koma í veg fyrir að strokulax úr sjókvíum ferðist um langan veg og blandist hrygningarstofnum villtra laxa. Þannig hafa þegar veiðst strokulaxar úr kvíaeldi í Vatnsdalsá í Húnavatnssýslu, Eyjafjarðará og Selá í Steingrímsfirði, auk strokulaxa sem veiðst hafa í ám við Djúp og á sunnanverðum Vestfjörðum. Eldislaxinn í Eyjafjarðará var kominn að hrygningu.

Á árinu 2017 var slátrað um 11.000 tonnum, á árinu 2018 var slátrað um 13.500 tonnum af laxi, tæplega 27.000 tonnum árið 2019 og 32.300 tonnum árið 2020. Vegna þeirrar varúðarreglu að sjókvíaeldi á laxi sé einungis heimilt á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði telur iðnaðurinn að vaxtarmöguleikar laxeldisins í sjó við Ísland séu verulega takmarkaðir en stefna á að hægt verði að framleiða 106.000 tonn á þessum svæðum, nái öll áform að ganga eftir.

Erfðablöndun

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi eftir Ragnar Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson, Agnar Steinarsson og Jón Hlöðver Friðriksson kemur fram að miðað við þróun veiða úr villtum íslenskum laxastofnun á undanförnum árum megi gera ráð fyrir sjálfbærri veiði (stanga- og netaveiði ) upp á um 50.000 veidda laxa að meðaltali (42.000 smálaxar og 8.000 stórlaxar). Þessi afli vegi að meðaltali um 100 tonn.

Náist markmið Landssambands fiskeldisstöðva verður magn frjórra eldislaxa í sjókvíum við strendur Íslands um 30 milljónir eða sex hundruðfalt magn þeirra villtu laxa sem veiðist úr náttúrulegum stofnum á hverju ári. Dæmigerð sjókví hýsir 200.000 eldislaxa.

Í Skotlandi hefur verið tilkynnt um að minnsta kosti tvær milljónir strokulaxa sem hafi sloppið sl. tíu ár og 1,9 milljónir tíu ár þar á undan. Árið 2016 var uppgefinn fjöldi strokulaxa úr eldi í Skotlandi 311.000 fiskar. Ef notað er viðurkennt viðmið um að fjórfalt meira en tilkynnt var hafi í raun sloppið þá þýðir það að fyrir hvert framleitt tonn það árið hafi sloppið sjö til átta eldislaxar.

Ef sjókvíaeldisfyrirtækjum við Ísland sem eru að byrja starfsemi og þurfa að glíma við óblíðar aðstæður hér við land gengur jafn „vel“ og Skotum árið 2016 að hemja eldisdýrin þýddi það um hálfa milljón strokulaxa á ári úr 70.000 tonna laxeldi hér við land. Strokulaxafjöldinn í sjó við Ísland yrði þá tífaldur á við náttúrulegu laxana sem ganga í allar ár landsins.

Slysasleppingar

Framleiðsla úr norsku laxeldi hefur verið um það bil 1,2 milljónir tonna á ári á undanförnum árum. Talið er að umfang slysasleppinga hafi minnkað verulega á undanförnum árum. Opinberar tölur benda til þess að umfang slysasleppinga sé nú u.þ.b. 0,2 strokulaxar á hvert framleitt tonn en rannsóknir benda þó til þess að margfalda megi þessa tölu með stuðlinum 2-4 til að sjá raunverulegt umfang stroks og sleppinga. Árin 2014-2015 var strokufiskur meira en 10% af heildarfjölda kynþroska laxa í 10-20% af rannsökuðum ám í Noregi. Yfir 90% þeirra strokulaxa sem ganga upp í ár eru kynþroska en hafa þó almennt mjög lélega samkeppnishæfni gagnvart villtum fiski. Norskar rannsóknir hafa sýnt fram á erfðablöndun úr eldislaxi í um það bil helmingi af þeim norskum laxveiðiám sem telja 3⁄4 hluta af norskum laxastofnum. Þetta er litið mjög alvarlegum augum af yfirvöldum og hagsmunaaðilum og ályktað var að varðveisla á erfðabreytileika villtra laxastofna náist aðeins með tvennum hætti, annars vegar með verulegri minnkun á fjölda strokulaxa út í villta náttúru eða með æxlunarhindrun með notkun á ófrjóum eldislaxi.

Talið er að raunverulegt strok sé ávallt mun meira en tilkynntar tölur gefa til kynna og þannig var raunverulegt strok fyrir árin 2005-2011 álitið 2-4 sinnum hærra en tilkynnt strok. Megi ætla að umfang stroks frá árinu 2008 hafi verið u.þ.b. 0,8 laxar á tonn að meðaltali. Ársframleiðslan hefur verið nálægt 1,2 milljón tonnum undanfarin 5-6 ár. Áætlað strok er allt að ein milljón eldislaxar á ári eða sem nemur 0,3% af heildarfjölda eldislaxa (sbr. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar).
Ef strok eldislaxa við strendur Íslands yrði með sama hætti og að ofan greinir varðandi Noreg gæti fjöldi laxa sem sleppur numið allt að 56.000 löxum m.v. 70.000 tonna framleiðslu, eða meiru en nemur öllum veiddum villtum laxi á Íslandi. En ef strok verður hér sambærilegt og í Skotlandi verða strokulaxar margfalt fleiri en allir veiddir villtir laxar úr náttúrulegum íslenskum stofnum.